Tilgangur:
Að mæla μ-togþols viðgerðarstyrk milli gamlaðs og nýs plastblendis með því að nota sílan og mismunandi bindiefni sem voru hert eða óhert þegar nýju plastblendi var bætt við.
Efni og aðferðir:
Áttatíu Filtek Supreme XLT plastblendi kubbar og fjórir viðmiðskubbar voru geymdir í vatni í 2 vikur og hitaðir/kældir 5000x. Kubbarnir voru sandpappírs slípaðir, ætaðir og skolaðir og skipt í tvo hópa: A: óbreytt yfirborð, B: bis-sílan borið á yfirborð. Báðum hópum var síðan skipt í undirhópa: (1) Adper Scotchbond Multi-Purpose, (2) Adper Scotchbond Multi-Purpose Adhesive, (3) Adper Scotchbond Universal, (4) Clearfil SE Bond og (5) One Step Plus. Hverjum bindiefnishóp var síðan skipt í: (a) ljóshert skv. ráðleggingum framleiðanda. (b) ekki hert fyrir viðgerð. Kubbarnir voru síðan viðgerðir með Filtek Supreme XLT. Eftir gömlun í sex mánuði, voru kubbarnir raðskornir í 1,1×1,1mm. stauta sem voru μ-togþolsprófaðir og viðgerðarstyrkur reiknaður. Brotfletir voru skoðaðir í smásjá og tegund brots skráð.
Niðurstöður:
Með því að herða ekki bindiefnið áður en viðgerð fer fram, jókst bindistyrkur marktækt hjá öllum tegundum bindiefna, með eða án sílans. Sílan meðferð jók bindistyrk marktækt hjá öllum bindiefnum, bæði í hertum og óhertum hópum (p<0.001). Togstyrkur viðmiðunar plastblendisins var marktækt hærri en hjá sterkasta viðgerðarhópnum (p<0.001).
Ályktun:
Bindistyrkur jókst með því að herða ekki bindiefnið áður en gert er við með nýju plastblendi. Sílan meðferð og bindiefni sem gaf þunnt bindilag höfðu besta viðgerðarstyrkinn.

Tilvísun:
Áhrif sílans og ljósherðingar á viðgerðarstyrk plastblendis
Elíassons SÞ, Dahl JE
TANNLÆKNABLAÐIÐ 2021; 39(2): 12-21
doi:10.33112/tann.39.2.1